Category Archives: Aðferðafræði

Aðferðafræði

Þingmannaspá – aðferðafræði

Þingsætaspáin

Ný þingsætaspá kosningaspá.is og Kjarnans mælir nú líkindi á því að einstaka frambjóðandi nái kjöri í Alþingiskosningunum næstkomandi laugardag. Niðurstöðurnar byggja á fyrirliggjandi könnunum á fylgi framboða í öllum sex kjördæmum landsins hverju sinni og eru niðurstöðurnar birtar hér að vefnum. Þingsætaspáin sem nú er birt byggir á Þjóðarpúlsi Gallup 3.-12 október (vægi 57%) og Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar 23. september – 5. október (vægi 43%). Ef fleiri könnunaraðilar birta fylgi framboða niður á kjördæmi ásamt upplýsingum um framkvæmd könnunar verður þeim upplýsingum bætt inn í þingsætaspánna.

Gallup er eini könnunaraðilinn sem hefur veitt aðgang að fylgistölum niður á kjördæmi. Auk þess var að finna fylgi niður á kjördæmi í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar sem birt var í Morgunblaðinu og á mbl.is. Fylgi flokka í kjördæmum hefur ekki hefur verið birt í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar 6.-12 október eða í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar 13.-19 október.

Fyrir kjördæmin

Líkur á því að einstaka frambjóðandi nái kjöri byggja á reiknilíkani stærðfræðinganna Baldurs Héðinssonar og Stefáns Inga Valdimarssonar. Í stuttu máli er aðferðafræðin sú að fylgi framboða í skoðanakönnunum er talin líklegasta niðurstaða kosninga að viðbættri óvissu sem byggir á sögulegu fráviki kannana frá kosningaúrslitum. Söguleg gögn sýna fylgni er á milli þess að ofmeta/vanmeta fylgi flokks í einu kjördæmi og að ofmeta/vanmeta fylgi flokksins í öðrum kjördæmum. Frávikið frá líklegustu niðurstöðu fyrir flokk er því ekki óháð milli kjördæma. Ef frávikið er neikvætt í einu kjördæmi fyrir ákveðinn flokk aukast líkurnar á að það sé sömuleiðis neikvætt í öðrum kjördæmum.

Reiknilíkanið hermir 100.000 „sýndarkosningar“ og úthlutar kjördæma- og jöfnunarsætum út frá niðurstöðunum. Líkur frambjóðanda á að ná kjöri er þess vegna hlutfall „sýndarkosninga“ þar sem frambjóðandinn nær kjöri.

Tökum ímyndað framboð X-listans í Norðvesturkjördæmi sem dæmi: Framboðið mælist með 20 prósent fylgi. Í flestum „sýndarkosningunum“ fær X-listinn 2 þingmenn en þó kemur fyrir að fylgið í kjördæminu dreifist þannig að niðurstaðan er aðeins einn þingmaður. Sömuleiðis kemur fyrir að X-listinn fær þrjá þingmenn í kjördæminu og í örfáum tilvikum eru fjórir þingmenn í höfn.

Ef skoðað er í hversu mörgum „sýndarkosningum“ hver frambjóðandi komst inn sem hlutfall af heildarfjölda fást líkurnar á að sá frambjóðandi nái kjöri. Sem dæmi, hafi frambjóðandinn í 2. sæti X-listans í Norðvesturkjördæmi náð kjöri í 90.000 af 100.000 „sýndarkosningum“ þá reiknast líkurnar á því að hann nái kjöri í Alþingiskosningunum 90 prósent.

Skoðanakannanir í aðdraganda Alþingiskosninga 2009 og 2013 voru notaðar til að sannprófa þingsætaspánna, þar sem spáin er borin saman við endanlega úthlutun þingsæta.

Forsetakosningar – uppgjör

Vægi skoðanakannana í loka kosningaspá endurspeglar frávik kannana frá úrslitum kosninga

Eitt helsta markmið kosningaspárinnar er að setja skoðanakannanir í samhengi með því að vega saman fyrirliggjandi kannanir og gefa þeim áreiðanlegri meira vægi í spá um úrslit kosninga.
Þegar kannanir sem gerðar voru stuttu fyrir forsetakosningarnar 25. júní eru bornar saman við úrslit kosninganna, sést að þetta markmið náðist.

Vægi kannana í lokaspá fyrir forsetakosningar 25. júní
aðili tímabil frávik frá úrslitum vægi í spá
Gallup fyrir RÚV 20.–24. júní 2.33% 52.9%
Félagsvísindast. fyrir Morgunblaðið 19.–22. júní 2.66% 28.3%
Fréttablaðið 21. júní 2.73% 18.8%

Könnunin sem fékk mest vægi í lokaspá fyrir kosningar (birt 24. júní) hefur minnst frávik frá úrslitum kosninganna. Könnunin sem fékk næst mest vægi reyndist með næst minnst frávik, og könnunin sem fékk minnst vægi reyndist með mest frávik.

Frávik skoðanakannana frá úrslitum

Athygli vekur að allar kannanir vanmátu fylgi Höllu Tómasdóttur og allar ofmátu fylgi Guðna Th. Jóhannessonar.

Frávik skoðanakannana í kosningaspá

(- merkir vanmat á fylgi og + ofmat á fylgi)
aðili Guðni Halla Davíð Andri Snær Sturla Elísabet Ástþór Guðrún Hildur meðal
Gallup 5.5% -9.3% 2.5% 1.5% -1.0% 0.4% 0.4% 0.2% -0.2% 2.33%
Félagsvísindast. 6.8% -11.6% 2.3% 1.4% 0.2% -0.1% 1.1% -0.3% 0.1% 2.66%
Fréttablaðið 9.9% -8.3% -1.3% -1.4% -1.0% 0.8% 1.4% -0.3% -0.2% 2.73%

Framtíðarspá

Sjáumst í alþingiskosningum í haust.

Aftur í loftið

Nú er styttist í forseta- og alþingiskosningar mun ég, í samvinnu við Kjarnann, endurvekja síðuna kosningaspa.is.

Í stað þess að beina athyglinni að niðurstöðum einstakra skoðanakannana, notast kosningaspa.is við allar fyrirliggjandi kannanir.

Reiknað er vægi fyrir hverja könnun sem ákvarðast af þremur þáttum:

1. Hver framkvæmir könnunina: Áreiðanlegri aðilar vega þyngra

2. Hvenær könnunin var framkvæmd: Nýrri kannanir vega þyngra

3. Hve margir svara könnuninni: Fjölmennari kannanir vega þyngra

Fylgi einstakra framboða er fundið með vegnu meðaltali úr fyrirliggjandi skoðanakönnunum. Nánari fróðleik um aðferðafræðina sem reiknilíkanið byggir á má finna hér.

Spá um stöðu flokka fyrir alþingiskosningar fer í loftið nú þegar og verður hún uppfærð eftir hverja nýja könnun.

Kosningaspá fyrir forsetakjör verður birt þegar kannanir sem endurspegla núverandi frambjóðendahóp hafa verið gerðar.

Sjá einnig á Kjarnanum.

Kosningaspá – uppgjör

Vægi skoðanakannana í loka kosningaspá endurspeglar frávik kannana frá úrslitum

Eitt helsta markmið kosningaspárinnar er að setja upplýsingar í samhengi. Taka saman fyrirliggjandi skoðanakannanir og gefa þeim áreiðanlegri meira vægi í spá um úrslit kosninga.
Þegar frávik kannana frá úrslitum gærkvöldsins eru borið saman við það vægi sem kannanirnar fengu í loka spá fyrir kosningarnar (birt 30. maí) sést að þetta markmið tókst.

Vægi kannana í loka spá fyrir kosningar
aðili tímabil frávik frá úrslitum vægi í spá
Capacent 23.-29. maí 1.8% 27.7%
Fréttablaðið 27.-28. maí 2.0% 26.9%
MMR 29.-30. maí 2.3% 26.6%
Félagsvísindast. 21.-27. maí 3.0% 18.8%

Könnunin sem fékk mest vægi spánni reyndist vera með minnst frávik frá úrslitum gærkvöldsins. Könnunin sem fékk næst mest vægi reyndist með næst minnst frávik, og svo koll af kolli.
Forspárgildi vægis í kosningaspá í fyrstu keyrslu er því ásættanlegt. Nú þegar úrslit liggja fyrir hefst vinna við aðra ítrun á reiknilíkaninu sem kosningaspáin byggir á.

Frávik skoðanakannana frá úrslitum

Frávik skoðanakannana frá kosningaúrslitum gærkvöldsins er í við meira en í kosningum 2010, 2006 og 2002.
Athygli vekur að allar kannanir vanmátu fylgi Framsóknar & flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins. Sömuleiðis að allar kannanir ofmátu fylgi Bjartrar framtíðar og Pírata.

Frávik skoðanakannana í kosningaspá

(- merkir vanmat á fylgi og + ofmat á fylgi)
aðili tímabil B D R S T V Þ Æ meðal
Capacent 23.-29. maí -3.8% -3.1% 0.0% 4.8% 0.0% -0.4% 0.4% 2.2% 1.8%
Fréttablaðið 27.-28. maí -1.5% -3.5% -0.1% 3.6% -0.6% -2.5% 1.1% 3.0% 2.0%
MMR 29.-30. maí -4.0% -4.3% -0.3% -0.7% 1.9% 1.7% 3.3% 2.6% 2.3%
Félagsvísindast. 21.-27. maí -5.2% -4.8% -0.1% 5.4% 0.2% -2.2% 1.6% 4.3% 3.0%

Framtíðarspá

Sjáumst í næstu kosningum.

Aðferðafræði – útgáfa 1.0

Kosningaspa.is er reiknilíkan sem ákvarðar fylgi framboða í aðdraganda borgarstjórnarkosninga út frá niðurstöðum fyrirliggjandi skoðanakannana.

Reiknað er vægi fyrir hverja könnun sem ákvarðast af þremur þáttum:

1. Hver framkvæmir könnunina: áreiðanlegri aðilar fá hærra vægi.

2. Hvenær könnunin var framkvæmd: nýrri kannanir fá hærra vægi.

3. Hvað svara margir könnuninni: fjölmennari kannanir fá hærra vægi.

Fylgi framboða reiknast sem vegið meðaltal af fyrirliggjandi könnunum.

 

Nánari lýsing á hvað ákvarðar vægi kannana:

1. Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Kosningar sem reiknilíkanið byggir á eru:

  • Borgarstjórnarkosningar: 2002, 2006 og 2010.
  • Alþingiskosningar: 2007, 2009 og 2013.

Spár könnunaraðila eru bornar saman við niðurstöður kosninga.

Frávik er mælt og notað til að ákvarða áreiðanleika könnunaraðila að teknu tilliti til  fjölda svarenda og hversu langt er til kosninga. Auk þess hefur fjöldi kannana sem aðili hefur birt í aðdraganda kosninga áhrif á þennan útreikning (mean reveresion).

2. Vægi könnunar í spá minnkar þeim mun eldri sem könnunin er. Ef könnun er framkvæmd yfir lengra tímabil er aldur mældur frá miðju tímabilinu.

3. Fjölmennari kannanir fá hærra vægi, en vægisaukningin minnkar eftir því sem svarfjöldinn eykst.

Að lokum ber að minnast á að aðferðafræði kosningaspa.is byggir að verulegu leyti á aðferðum Nate Silver, sem áhugasamir eru hvattir til að kynna sér á fivethirtyeight.com

Ítarlegri lýsing á aðferðafræði kosningaspá.is verður birt innan skamms.